Innlent

Sýslumaður minnir ökumenn á að fara varlega

MYND/úr safni

Jónas Guðmundsson, sýslumaður í Bolungavík, hefur sent frá sér tilkynningu vegna fyrirhugaðs hópaksturs um Óshlíð í kvöld. Hann segir að lögregla muni ekki hafa önnur afskipti af viðburðinum en að halda upp almennu eftirliti. Einnig brýnir hann fyrir ökumönnum að hafa gott bil á milli ökutækja vegna hættu á grjóthruni.

Tilkynningin er sem hér segir:

Í tilefni af fyrirhuguðum hópakstri frá Bolungarvík um Óshlíð í kvöld, fimmtudaginn 31. ágúst, þykir rétt að taka fram að lögreglan í Bolungarvík mun ekki hafa önnur afskipti af þessum viðburði en að halda uppi almennu eftirlit.

Á það skal minnt að ávallt má gera ráð fyrir grjóthruni, sérstaklega úr fjallinu Óshyrnu, og reynslan hefur sýnt að það er tíðara á haustin en aðra tíma ársins, ekki síst í vætutíð. Má geta þess að nokkrir stórir steinar féllu á hlíðina í gær.

Ökumenn eru eindregið hvattir til að hafa gott bil milli bíla sinna. Þeir eru beðnir að aka viðstöðulaust og ekki hægar en aðstæður bjóða upp á, einkum undir Óshyrnu. Einnig eru ökumenn beðnir að sýna annarri umferð fulla tillitssemi.

Minnt er á reynsluna er haldið var upp á 50 ára vígsluafmæli vegarins í lok ágúst árið 2000 og talsvert grjót hrundi á veginn úr Óshyrnu meðan bílalest var þar á ferð og laskaði einn bíl.

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×