Innlent

Útlit fyrir metfjölda ferðamanna í ár

Útlit er fyrir að met verði slegið í fjölda erlendra ferðamanna hér á landi í ár og að í kringum 400 þúsund manns sæki landið heim. Kvörtunum vegna lakrar þjónustu hefur hins vegar fjölgað í ár og hvetur ferðamálastjóri íslenska ferðaþjónustu til þess að vera á varðbergi gagnvart því.

Nýjar tölur frá Ferðamálastofu sýna að aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn komið til landsins í einum mánuði en í júlí síðastliðnum, eða tæplega 67 þúsund. Hefur ferðamönnum sem fara um Leifsstöð fjölgað um 6,3 prósent fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þá eru ótaldir ferðamenn sem koma með Norrænu en ekki liggur fyrir hversu mikið þeim hefur fjölgað.

Í fyrra komu tæplega 370 þúsund ferðamenn til landsins í flugi eða með Norrænu en útlit er fyrir að þeir verði um 400 þúsund í ár. Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að þar séu þeir ferðamenn sem komi með skemmtiferðaskipum ár hvert ekki teknir með í reikninginn en tekjur af þeim séu einnig töluverðar fyrir alla landsfjórðunga.

Magnús segir að sem fyrr sé mest kvartað undan háu verðlagi á Íslandi en kvörtunum vegna lélegrar þjónustu hafi þó fjölgað nokkuð í ár. Hann segir að þótt fjöldi ferðamanna hafi tvöfaldast á síðustu tveimur árum geti Íslendingar ekki hallað sér aftur og haldið að hlutirnir gerist af sjálfu sér, menn verði að vera á varðbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×