Innlent

Starfshópur um norðurslóðamál

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra MYND/Gunnar V. Andrésson

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í dag ákvörðun sína um að setja á laggirnar starfshóp um norðurslóðamál. Viðfangsefni starfshópsins verða að undirbúa alþjóðlega ráðstefnu um norðurslóðamál í Reykjavík í mars 2007 og leggja fram greinargerð í kjölfar hennar um stefnumið Íslands og forgangsröðun verkefna í norðurslóðastarfi.

Í niðurlagi skýrslu starfshóps utanríkisráðuneytisins frá í febrúar 2005, sem ber heitið Fyrir Stafni Haf - Tækifæri tengd siglingum á norðurslóðum, kemur fram að skýrslan sé fyrsta skrefið í þá átt að leggja raunsætt mat á þá hagsmuni sem kynnu að vera í húfi fyrir Ísland og vísa veginn til frekara undirbúningsstarfs.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan skýrslan kom upphaflega út hefur siglingum á norðurslóðum verið aukinn gaumur gefinn í alþjóðlegri umræðu. Hér á landi hafa stofnanir og fyrirtæki einnig byrjað að velta fyrir sér áhrifum vaxandi siglinga við landið á öryggi og umhverfisvernd. Að dómi utanríkisráðherra er því tímabært að fylgja eftir niðurstöðum skýrslunnar og verður leitað til m.a. ríkis og sveitarfélaga, atvinnulífs og háskólasamfélags um að tilnefna fulltrúa í starfshópinn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×