Innlent

Tveir fangar taldir tengjast fíkniefnasmyglinu

Mynd/Stefán

Tveir fangar sem afplána dóm á Litla-hrauni hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðahald í tengslum við fíkniefnasmygl fangavarðar á Litla-Hrauni á laugardaginn. Forstöðumaður Litla-Hrauns segir fíkniefnasmygl fangavarðarins mikið áfall.

Fangavörðurinn hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald og refsifangarnir í sex daga gæsluvarðhald en rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi og lögregluyfirvöld vilja lítið gefa upp um rannsókn þess. Kristján Stefánsson, forstöðumaður á Litla-Hrauni segir smyglið vera mikið áfall fyrir fangaverði og til standi að halda fundi með starfsmönnum í vikunni vegna þessa. Mikið hefur verið um fíkniefni á Litla-hrauni í sumar og fóru grunsemdir að vakna um að einhver starfsmannanna væri viðriðin smygl en ólíklegt þótti að fólk sem færi í gegnum almenna skoðun gætu smyglað því magni sem um ræðir. Kristján segir að orðrómur hafi verið innan veggja fangelsins að umræddur maður ætti þátt í fíkniefnasmygli til fanga.

Fangavörðurinn, sem er um tvítugt, var starfsmaður í sumarafleysingum. Valtýr Sigurðsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins, segir manninn hafa hreint sakavottorð og hafi komið vel fyrir í ráðningarviðtali fyrr í sumar. Hann segir óljóst á þessari stundu hvernig tekið verði á málinu eða hvort fleiri tengist því, en harður heimur ríki innan múra fangelsa og því sé ekki útilokað að fangar eigi þátt í smyglinu.

Valtýr segir að breytingar gætu orðið á eftirliti með starfsfólki fangelsa en fíkniefnasmygl fangavarða er einsdæmi hér á landi svo vitað sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×