Innlent

Rúmlega 1.100 stúdentar á biðlista eftir húsnæði

Nemendur við Háskólann í Reykjavík geta sótt um stúdentaíbúðir hjá Byggingafélagi námsmanna.
Nemendur við Háskólann í Reykjavík geta sótt um stúdentaíbúðir hjá Byggingafélagi námsmanna. Mynd/E.Ól
Rúmlega 1.100 stúdentar eru nú á biðlistum eftir húsnæði á stúdentagörðum. Formaður skipulagsráðs Reykajvíkurborgar segir að verið sé að leita lausna á húsnæðisvanda stúdenta.

Um 700 stúdentar eru á biðlista eftir íbúð á Stúdentagörðum Háskóla Íslands. Þá eru um 450 umsóknir um húsnæði hjá Byggingafélagi námsmanna en stúdentar við Háskólann í Reykjavík, Kennaraháskóla Íslands, Fjöltækniskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og hjá Iðnnemasambandi Íslands geta sótt um íbúðir hjá Byggingarfélagi námsmanna. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs, segir að hún hafi hitt fulltrúa Byggingafélagsins og Félagsstofnun stúdenta og verið sé að fara yfir stöðuna og leita leiða til enn frekari byggingu stúdentagarða. Félagsstofnun stúdenta hefur fengið vilyrði fyrir byggingu stúdentagarða við Lindargötu svo og á svokölluðum Barónsreit við Hverfisgötu. Framkvæmdir fyrihugaðra stúdentagarða á Barónsreit hefur verið kærð og er málið til meðferðar hjá skipulagsstofnun en kæran hefur seinkað framkvæmdum. Byggingafélag námsmanna hefur fengið vilyrði fyrir lóðum við Þverholt 15-21 og Einholt 6-8. Sú framkvæmd er á hönnunarstigi en enn á eftir að rífa hús við þessar götur.

Sigurður Guðmundsson, sviðsstjóri rekstrarsviðs Byggingafélags Námsmanna, segir að allt útlit sé fyrir að fækka eigi eftir úr hópi þeirra 450 umsækjanda sem séu á biðlista. Verið sé að byggja 200 íbúðir við Klaustur- og Kapelluveg í Grafarholti og rúmlega þrjátíu íbúðir verða teknar í noktun í haust og um 100 þegar fer að líða á veturinn. Þá er einnig verðið að byggja um 100 íbúðir við Bjarkavelli í Hafnarfirði og gert er ráð fyrir að þær íbúðir verði tilbúnar til afhendingar næsta sumar. Það er því ljóst að ekki komast allir af biðlistum á stúdentagarða í vetur þrátt fyrir mikla uppbyggingu stúdentaíbúða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×