Innlent

Berjast gegn kvikasilfursmengun

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra
Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra MYND/GVA

Það var ákveðið á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna sem fram fór á Svalbarða þann 21. ágúst að stuðla að efldri baráttu gegn mengun af völdum kvikasilfurs og þrávirkra lífrænna efna. Norðurlöndin munu beita sér fyrir gerð alþjóðasáttmála gegn kvikasilfursmengun, sem fer vaxandi víða, þar á meðal á Norðurlöndum.

Unnið veður upplýsingarefni um mengun af völdum kvikasilfurs sem kynnt verður í alþjóðlegum viðræðum. Stefnt er að því að ná samkomulagi um alþjóðlegan samning um kvikasilfur á fundi Sameinuðu þjóðanna í febrúar 2007.

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sagði að rannsóknir á Svalbarða og annars staðar á Norðurslóðum, hefðu sýnt fram á það að þessi efni bærust langar leiðir og söfnuðust fyrir í lífkeðjunni. Því væru aðgerðir nauðsinlegar.

Umhverfisráðherrarnir samþykktu einnig yfirlýsingu um aðlögun að loftslagsbreytingum, þar sem segir að Norðurlöndin muni vinna saman að því að bæta þekkingu á líklegum áhrifum loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag í ríkjunum.

Nauðsynlegt sé að undirbúa aðlögun að loftslagsbreytingum, þar sem fyrirsjáanlegt sé að verulegar breytingar muni eiga sér stað á þessari öld, eins þótt árangur náist við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Norðurlöndin munu vinna að því á alþjóðavettvangi að settar verði nýjar skuldbindingar um losun eftir 2012 og að öll helstu losunarríkin verði með í aðgerðum við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda hnattrænt.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Umhverfisráðuneytið sendi frá sér í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×