Innlent

Vill styrkja stöðu háskólanna

Mynd/GVA

Menntamálaráðherra er ánægður með niðurstöður nýrrar skýrslu OECD um stöðu háskóla á Íslandi. Hún vill styrkja stöðu háskólanna og auka gæði þess náms sem þar er í boði.

Skýrslan er hluti af úttekt OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, á háskólastigi í 24 löndum og er markmið hennar að kanna áhrif opinberrar stefnumörkunar í málefnum háskóla í löndunum og vísa veginn um úrbætur og nýjungar. Í skýrslunni er gerð athugsasemd um gæðamat háskólanáms og þar segir að Íslendingar þurfi að gera átak í gæðamálum hvað menntun á háskólastigi varðar, því ekkert slíkt mat fari fram með reglulegum hætti. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segir að ný rammalöggjöf um gæðakröfur til háskóla sem samþykkt hafi verið á Alþingi í vor, muni sérstaklega taka á gæðamálum háskólanáms.

Niðurstöður skýrslunnar um háskólastigið á Íslandi er almennt frekar jákvæðar. Þó er einnig bent á að aukning fjármagns til háskólastigsins og nýjar fjármögnunarleiðir verði meginviðfangsefni stefnumótunnar fyrir æðri menntun á íslandi í framtíðinni. Þorgerður Katrín bendir á að þanþol ríkisvaldsins sé takmarkað varðandi það að auka fjármagn til háskólanna. Og stúdentar geta verið rólegir enn um sinn því menntamálaráðherra segir skólagjöld við háskólanna verði ekki tekin upp í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×