Innlent

Mögulegt vestnorrænt fríverslunarsvæði

Það var ályktun ársfundar Vestnorræna ráðsins í Færeyjum í dag, að ríkistjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands eigi að kanna möguleika á aðild Grænlands að Hoyvíkur-samningnum. Sá samningur er víðtækur fríverslunarsamningur sem gerður hefur verið og leiðir hann til íslensks-færeysks efnahagssvæðis þegar hann tekur gildi síðar á árinu.

Við gildistöku samningsins mun heimamarkaður Íslands stækka um 50.000 manns. Samningurinn gerir sérstaklega ráð fyrir útvíkkun hans til fleiri hluta konungsveldisins Danmerkur. Vestnorræna ráðið vill nú kanna möguleika á þátttöku Grænlands í samningnum. Með því yrði til vestnorrænt fríverslunarsvæði.

Einnig samþykkti ráðið að löndin þrjú skuli skiptast á launuðum konsúlum með diplómatíska stöðu sem styrkja mundi samstarf þeirra enn frekar.

Á ársfundinum var Jonathan Motzfeld, formaður grænlenska þingsins, kjörinn formaður og Halldór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar og Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, kjörinn varaformaður.

Þá greindi Ole Stavad, Forseti Norðurlandaráðs, að forsætisnefndir Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs hefðu ákveðið að gera uppkast að formlegum samstarfssamningi milli ráðanna tveggja.

Fundurinn samþykkti einnig tillögur þess efnis styrkja skuli samstarf þjóðanna í ferðamálum og í baráttu gegn reykingum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um ársfund Vestnorræna ráðsins sem lauk í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×