Innlent

Tillaga að nýrri verslunarmiðstöð

Ef tillögur þróunarfélagsins Þyrpingar hf hljóta náð fyrir augum skipulagsnefndar Seltjarnarnessbæjar verður verslanamiðstöð byggð á rúmlega tveggja hektara landfyllingu norðaustur af Eiðistorgi.

Samkvæmt tillögum Þyrpingar yrði landfyllingin norðaustan við gatnamót Norðurstrandar og Suðurstrandar, þar sem bensínstöð Skeljungs er staðsett. Haft er að augnamiði að byggingarnar falli vel inn í umhverfið, húsin verða ekki háreist og talsverð vinna verður lögð í landslagsvinnu á svæðinu í kring, með grænum svæðum og göngustígum.

Að sögn Odds Víðissonar, framkvæmdastjóra Þyrpingar, fór fyrirtækið út í þessa hugmyndavinnu til að mæta þörfum verslunar á Seltjarnarnesi. Hagkaupsverslunin á Eiðistorgi er í 30 ára gömlu húsi og til stendur að verslunarhús Bónuss við Hrólfsskálamel verði rifið til að rýma fyrir íbúðarhúsnæði. Samkvæmt teikningum Þyrpingar er áætlað að Hagkaup fái 4000 fermetra gólfflöt fyrir nýja verslun og ný verslun Bónuss fái 1200 fermetra.

Tillögurnar voru lagðar fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarnessbæjar á fimmtudaginn en að sögn formanns nefndarinnar var málið ekkert rætt á fundinum og verður ekki rætt fyrr en á fimmtudaginn í næstu viku. Hann sagði hins vegar ljóst að ef hugmyndir Þyrpingar yrðu að veruleika myndi stóraukast vöruúrval sem Seltirningum og nærsveitungum stæði til boða og þar með aukast möguleikar þeirra til að versla í heimabyggð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×