Innlent

Samningur Íslands og Namibíu um þróunarmál framlengdur til 2010

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra undirritaði í dag, fyrir hönd ríkisstjórnar Ísland, framlengingu á samningi Íslands og Namibíu um samstarf þróunarmála.

Fyrri samningur þjóðanna hefði runnið út 2007 en hefur nú verið framlengdur um þrjú ár eða til ársloka 2010.

Íslendingar hafa veitt Namibíumönnum þróunaraðstoð allt frá árinu 1990 en fyrsti samningur landanna um þróunarsamstarf var undirritaður árið 1991. Meginviðfangsefni þróunaraðstoðar Íslands við Namibíu á þessum árum hafa verið verkefni í tengslum við sjávarútveg, meðal annars á sviði fiski- og hafrannsókna sem og uppbyggingu sjómannafræðslu. Bæði fiski- og hafrannsóknirnar eru nú alfarið í höndum Namibíumanna þannig að ráðgjöf og aðstoð Íslendinga hefur skilað góðum árangri. Sjómannaskólinn í Namibíu, NAMFI telst nú vera orðinn í hópi hinna bestu sinnar tegundar í Afríku og er starfræktur samkvæmt kröfum Alþjóða siglingamálastofnunarinnar.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra situr nú fjölþjóðlega ráðstefnu í Namibíu um sjávarútvegsmál og fiskeldi á vegum Þróunarsamvinnustofnunnar Íslands í samvinnu við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×