Innlent

Framkvæmdirnar njóta stuðnings

Geir H. Haarde segir vissulega eftirsjá að því landi sem fer undir þegar vatni verður hleypt í Hálslón.
Efnahagsleg áhrif framkvæmdanna vegi hins vegar þyngra. Hér má sjá Ómar Ragnarsson leiða hópinn í gönguferð um Kringilsárrana.
Geir H. Haarde segir vissulega eftirsjá að því landi sem fer undir þegar vatni verður hleypt í Hálslón. Efnahagsleg áhrif framkvæmdanna vegi hins vegar þyngra. Hér má sjá Ómar Ragnarsson leiða hópinn í gönguferð um Kringilsárrana. MYND/VILHELM

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir menn hafa gert sér grein fyrir umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar þegar ráðist var í framkvæmdirnar.

Hins vegar verði alltaf að eiga sér stað ákveðið hagsmunamat þegar stórar ákvarðanir eru teknar. „Ég tel að við höfum tekið hárrétta ákvörðun. Auðvitað er alltaf eftirsjá að landi sem hverfur. Hins vegar er mikið af þessu örfokaland, þótt eitthvað sé um gróin svæði. Ef ég ætti að velja efnahagsáhrifin af virkjuninni eða að halda þessu landi myndi ég velja nákvæmlega sama kost og við gerðum á sínum tíma," sagði Geir á Kárahnjúkum.

Geir heimsótti í gær virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar undir leiðsögn Ómars Ragnarssonar fjölmiðlamanns. Með í för voru þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, auk þingmannanna Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Arnbjargar Sveinsdóttur.

Ómar flaug með hópinn í eins hreyfils flugvél vítt og breitt yfir virkjanasvæðið og sýndi þeim stóran hluta þess svæðis sem fer undir þegar vatni verður hleypt í Hálslón. Ferðinni lauk svo á Kringilsárrana sem verður á um sextíu metra dýpi. Þaðan leiddi Ómar hópinn í gönguferð um svæðið.

Geir H. Haarde sagðist vera að sjá marga þá staði sem Ómar sýndi hópnum í fyrsta skipti. „Ég hef náttúrulega skoðað virkjanasvæðið og þar í kring. Þetta er þó nýtt að sumu leyti og einstaklega gaman að sjá svæðið úr lofti, sérstaklega í fylgd þessa einstaka leiðsögumanns." Virkjunin við Kárahnjúka hefur verið mikið hitamál í samfélaginu en Geir telur ekki leika vafa á því að framkvæmdirnar njóti stuðnings.

„Ákvörðunin var tekin lögum samkvæmt og ég held að hún njóti stuðnings bæði í flestum stjórnmálaflokkum og meðal þjóðarinnar." Ómar Ragnarsson segir ferðina hafa gengið vel í alla staði. Það hafi verið mikil ánægja og heiður að fylgja hópnum um svæðið. „Þessar ferðir mínar um svæðið eru fyrst og fremst til að miðla upplýsingum. Síðan er það fólks að vinna úr þeim upplýsingum."

Ómar hefur einnig boðið ráðherrum Framsóknarflokksins í skoðunarferð um virkjunarsvæðið; þegar hafa þau Valgerður Sverrisdóttir, Guðni Ágústsson og Jónína Bjartmarz þekkst boðið. Þá liggur sams konar boð á borði forsvarsmanna helstu fjölmiðla og forseta Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×