Innlent

Hegningarhúsið stenst ekki undanþáguskilyrði

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er og hefur verið á undanþágu hjá heilbrigðisyfirvöldum í mörg ár. Ekki er hægt að fara að skilyrðum fyrir undanþágunni vegna yfirfullra fangelsa. Aðgerðir til að fjölga fangaplássum eru stopp vegna ákvörðunar stjórnvalda um að fresta framkvæmdum.

Fangelsi landsins eru yfirfull og hefur Fangelsismálastofnun ekki getað tekið við öllum gæsluvarðhaldsföngum sem þeir hafa verið beðnir um að vista. Hegningarhúsið á Skólavörðustíg er á undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum í Reykjavík. Nú er svo yfirfullt að fangelsið stenst ekki skilyrði fyrir undanþágunni en hún kveður á um að aðeins einn fangi skuli vera í hverjum klefa en nú er tvímennt í þremur klefum. Undanþága hegningarhússins gildir til ársins 2010 en þá er stefnt að því endurbætur og fjölgun plássa verði lokið.

Alls eru ellefu gæsluvarðhaldspláss og segir fangelsismálastjóri að meðaltali tvo vera í einangrun hverju sinni. Ástandið að undanförnu er því langt frá meðaltalinu. Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri, segist því ekki vita hvert framhaldið verður en vonast til að það skýrist í haust þegar þing kemur saman að nýju. En frestun framkvæmda er liður í aðgerðum stjórnvalda til að draga úr þenslu og sporna gegn verðbólgu.

Bitnar framkvæmdastöðvunin helst á fjölgun fangapláss um átta á Kvíabryggju. Eins ætti að vera búið að bjóða út framkvæmdir við fangelsið á Akureyri og stöðvunin hefur líka áhrif á hönnunarvinnu við fangelsi á Hólmsheiði sem á að vera til búið árið 2010 og á breytingar á Litla hrauni sem ljúka á ári fyrr. En saga um nýtt fangelsi er orðin gömul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×