Innlent

Siv nýtur meiri stuðnings en Jón

Siv Friðleifsdóttir nýtur mun meira fylgis en Jón Sigurðsson samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir stuðningsmenn Sivjar. Formannskjör fer fram á morgun.

Könnunin fór fram dagana 11. til 17. ágúst. Úrtakið var 590 manns á aldrinum 18 til 75 ára. Svarhlutfall var 61,5%. Svarendur voru spurðir: Hvort eru meiri líkur til að þú kjósir Framsóknarflokkinn í næstu alþingiskosningum undir formennsku Jóns Sigurðssonar eða Sivjar Friðleifsdóttur? 34% sögðust frekar myndu kjósa flokkinn undir forystu Sivjar en 12,6% sögðust kjósa flokkinn frekar undir forystu Jóns. Tæp 47% svarenda sögðust ekki myndu kjósa Framsóknarflokkinn til að byrja með.

Af þeims sem mögulega myndu kjósa Framsóknarflokkinn sögðust 64,1% frekar kjósa hann undir forystu Sivjar en 23,7% undir forystu Jóns. Um 12% svarenda sagði það ekki myndu breyta vali sínu hvort þeirra færi með formannsembættið.

Í könnuninni kom fram að konur eru lítið eitt líklegri til að kjósa Siv en karlar. Fylgi hennar er einnig meira hjá yngri aldurshópum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×