Innlent

Slaka á sérkröfum um öryggisleit

MYND/Teitur

Nokkuð hefur dregið úr viðbúnaði vegna hryðjuverkaógnar á alþjóðaflugvöllum. Í því ljósi hafa yfirvöld á Keflavíkurflugvelli ákveðið að minka þær sérkröfur um öryggisleit og leyfilegan handfarangur sem í gildi hafa verið. Farþegar eru samt sem áður hvattir til að mæta tímanlega fyrir flugferðir sínar.

Farþegar eru enn um sinn hvattir til að lágmarka handfarangur sinn til að tryggja greiða afgreiðslu við öryggisleit.

Öryggisleitinni á Keflavíkurflugvelli verður hagað með eftirfarandi hætti þar til annað verður ákveðið:

Farþegum á leið til Bandaríkjanna er enn óheimilt að hafa meðferðis vökva eða vökvatengd efni. Undanþegin þessu eru nauðsynleg lyf, matvara fyrir ungabörn og varningur keyptur í flugstöðinni sem afhentur er í innsigluðum umbúðum. Einnig mega farþegar á leið til Bandaríkjanna eiga von á að lenda í aukaöryggisleit við brottfararhlið.

Farþegum á öðrum flugleiðum skal bent á að öryggisstarfsfólk gefur vökvum og vökvakenndum efnum sérstakan gaum.

Slembileit verður viðhöfð á skófatnaði í stað þess að allir farþegar þurfi að fara úr skóm. Farþegar þurfa að taka fartölvur og annan rafmagnsbúnað úr handfarangri áður en farið er í gegnum vopnaleit.

Rétt er að taka fram að engar nýjar takmarkanir eru á meðferð slíks búnaðar þ.á.m. farsíma og "i-pod" hljómtækja. Til að flýta öryggisleit er mælt með því að farþegar taki alla málmhluti af sér og úr vösum áður en gengið er gegnum málmleitarhlið.

Yfirvöld vilja koma á framfæri þökkum til flugfarþega fyrir skilning á breyttum aðstæðum og munu gera sitt ýtrasta til að lágmarka óþægindi af þessum sökum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem flugvallarstjórinn og sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli sendu frá sér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×