Innlent

Beinagrind af landnámsmanni ásamt vopnum

Vel varðveitt beinagrind af landnámsmanni ásamt vopnum hans hafa fundist í heiðnu kumli frá tíundu öld í Hringsdal í Arnarfirði á Vestfjörðum. Um er að ræða einn merkasta fornleifafund síðari ára því kumlið sem um ræðir er nær óraskað.

Fornleifafræðingar hafa undanfarnar vikur unnið við uppgröft í kumlinu en það var í fyrradag sem þar komu niður á gröfina sjálfar. Þar fundu þeir vel varðveitta beinagrind af karlmanni ásamt vel varðveittu sverð, spjótsoddi skjaldarbólu og kambi. Minjarnar hafa nú verið fluttar til Reykjavíkur til frekari rannsókna.

Það var bróðir Hilmars Einarsson, bónda í Hringsdal, sem gekk fram á mannabein á staðnum fyrir nokkrum vikum og það varð til þess að farið var að grafa á staðnum. Í ljós hefur komið að annað kuml er þar skammt frá og verður það kannað næsta sumar.

Munnmælasögur hafa gengið í sveitinni í gegnum aldirnar af Hring nokkrum og tók land í dalnum. Hans er hvergi getið í landnámssögum en sagan segir að hann hafi verið vígamaður mikill sem flúð hafi hingað til lands frá Noregi. Hann var hins vegar eltur af Austmanni nokkrum sem átti sitthvað sökótt við hann. Segir sagan að Hringur hafi barist við menn Austmanns, alls fjórtán talsins, og náð að drepa sex áður en hann var felldur. Hringur hafi svo verið heygður niður við sjóinn, á nærri þeim stað sem kumlið fannst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×