Innlent

Seðlabankastjóri setur ekki lög

Kristinn H. Gunnarsson á Flokksþingi Framsóknarflokksins
Kristinn H. Gunnarsson á Flokksþingi Framsóknarflokksins MYND/Valgarður Gíslason

Seðlabankastjóri hefur ekki vald til stefnumótunar varðandi Íbúðalánasjóð, segir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Hann segir að Framsóknarmenn muni standa fast á því að ákvæði í stjórnarsáttmála um sjóðinn standi.

Við hækkun stýrivaxta í gær sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri nauðsynlegt að breytingar verði gerðar á Íbúðalánasjóði fyrir áramót. Hugmyndir liggja fyrir hjá ríkisstjórinni um að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka, en félagsmálaráðherra segist ekki geta sagt til um hvort frumvarp þess efnis verði lagt fyrir í haust. Enn vinni starfshópur að málefninu.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar á heimasíðu sína, www.kristinn.is, í dag að hann skilji ekki þessar þreifingar með íbúðalánasjóð. Stjórnarsáttmáli hafi verið undirritaður þar sem staða Íbúðalánasjóðs sé tryggð. Seðlabankastjóri hafi ekki vald til þess að segja til um hvaða lög eigi að setja og hvenær. Kristinn bendir einnig á að Íbúðalánasjóður hafi ekki ýtt af stað verðbólgunni, heldur bankarnir með hundrað prósent íbúðalánum sínum. Íbúðalánasjóður hafi komið með mestu kjarabót sem neytendur hafi séð í langan tíma þegar hann lækkaði vexti í 4,15%.

Í pistli sínum segir Kristinn það engu líkara en að Davíð Oddsson hafi gleymt að hann sé hættur í stjórnmálum. Ríkisstjórinni sé óheimilt að gera breytingar á Íbúðalánasjóði vegna stjórnarsáttmála Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Orð skulu standa og pólitískir draugar kveðnir niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×