Viðskipti innlent

Bætist við krónubréf

Tvær erlendar fjármálastofnanir tilkynntu um útgáfu krónubréfa í gær. Annars vegar þróunarbankinn KfW, sem gaf út nýjan flokk að andvirði 3 milljarða króna með gjalddaga í febrúar 2008. Hins vegar varð það Evrópski fjárfestingabankinn (EIB) sem bætti þremur milljörðum króna við útgáfu með gjalddaga í október 2008. Nemur heildarútgáfa krónubréfa nú tæpum 260 milljörðum króna og næg spurn virðist eftir krónubréfum meðal erlendra fjárfesta.

 

Í Morgunkorni Glitnis segir að ýmsir velti nú fyrir sér hver áhrif fyrstu gjalddaga krónubréfanna verða en alls eru um 40 milljarðar króna á gjalddaga í næsta mánuði. Verði raunin sú að erlendu fjárfestarnir framlengi hluta þessara bréfa má búast við minni áhrifum á gengi krónunnar en ella.

Áhrifa vaxandi útgáfu krónubréfa hefur mátt merkja á markaði hérlendis en gengi krónu gagnvart evru hefur farið hækkandi síðustu vikur auk þess sem ávöxtunarkrafa lengri flokka ríkisbréfa hefur farið lækkandi, en leiða má líkur að verið sé að kaupa þau á móti skiptasamningum í einhverjum mæli vegna krónubréfanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×