Innlent

Tímamót hjá UNICEF á Íslandi

Tímamót urðu í dag í starfi Barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi þegar gengið var frá samningi um framtíðarsamstarf. Framkvæmdastjóri UNICEF er stödd hér á landi í tilefni þessa. UNICEF á Íslandi hefur verið starfrækt í tvö ár en landsnefndin var stofnuð út frá hugmynd Stefáns Inga Stefánssonar framkvæmdastjóra samtakanna.

Stefán segir samninginn marka tímamót en með honum er landsnefndin að skuldbunda sig til að halda áfram að afla fjár til verkefna UNICEF og standa vörð um líf barna út um allan heim.

Framkvæmdastjóri UNICEF, Ann M. Veneman segir viðökur Íslendinga við barnahjálpinni með eindæmum góðar en landsnefndin hefur náð þeim árangri að safna að meðaltali 12.5 bandaríkjadölum á hvern íbúa en það er hlutfallslega meðal hæstu framlaga innan landsnefnda UNICEF. Hún segist einnig afar ánægð með íslensku ríkisstjórnina sem hefur stóraukið framlög sín til verkefna UNICEF á síðustu árum en Ann fundaði með Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra í morgun.

UNICEF á Íslandi styrkir með beinum hætti verkefni í Nígeríu, Sierra Leone og Gíneu-Bissá sem miða að bólusetningu og menntun barna. Samtökin hafa m.a fjármagnað byggingu 180 skóla í Sierra Leone og Gíneu-Bissá, fyrir tilstuðlan styrkja frá íslenskum fyrirtækjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×