Innlent

Réðst tvívegis á sama manninn

Héraðsdómur reykjavíkur Maðurinn sagði fórnarlamb sitt hafa klipið í afturenda kærustu sinnar.
Héraðsdómur reykjavíkur Maðurinn sagði fórnarlamb sitt hafa klipið í afturenda kærustu sinnar.

 Rúmlega tvítugur maður hefur verið dæmdur til átta mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar auk ökuleyfissviptingar í þrjá mánuði vegna tveggja líkamsárása og fyrir að hafa tólf sinnum ekið farartækjum án ökuréttinda.

Hinn ákærði réðst tvívegis á annan mann í miðborg Reykjavíkur með nokkurra mánaða millibili. Samkvæmt dómsskjölum taldi hann sig eiga sökótt við manninn vegna þess að hann hefði klipið kærustu hans í afturendann. Hann réðst því að manninum og sló hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og hlaut skurð á hnakka. Nokkrum mánuðum síðar réðst ákærði aftur að sama manni með höggum og spörkum þannig að hann tvíkjálkabrotnaði við aðförina og hlaut fleiður á hálsi.

Hinn ákærði viðurkenndi fyrri árásina fyrir dómi en kvaðst ekki hafa verið staddur í miðborginni þegar sú seinni átti sér stað. Vitnisburður þeirra sem staðfestu þá frásögn ákærða var hins vegar ekki samhljóma og þótti þar af leiðandi ótrúverðugur. Því var hann dæmdur fyrir báðar árásirnar og gert að greiða fórnarlambi sínu tæplega 400.000 krónur auk vaxta og sakakostnaðar. Refsing mannsins fellur niður haldi hann skilorð í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×