Innlent

Gefur ekki kost á sér aftur

Sigríður Anna Þórðardóttir Segist ekki munu hætta afskiptum af stjórnmálum þótt hún hætti á þingi.
Sigríður Anna Þórðardóttir Segist ekki munu hætta afskiptum af stjórnmálum þótt hún hætti á þingi. MYND/E.ól

Sigríður Anna Þórðardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, hefur tilkynnt að hún muni ekki aftur gefa kost á sér til þings. Sigríður Anna segir að þetta sé góður tími til að hætta, staða Sjálfstæðisflokksins sé sterk og Suðvesturkjördæmi langsterkasta kjördæmi flokksins.

Þegar hefur Gunnar Birgisson hætt þingmennsku og Árni Mathiesen tilkynnt að hann muni færa sig um set og bjóða sig fram í Suðurkjördæmi.

Þrír efstu menn listans frá síðustu kosningum munu því ekki gefa kost á sér aftur. Sigríður Anna segir stöðuna mjög opna í kjördæminu, líkt og var þegar hún settist á þing árið 1991. „Þó nauðsynlegt sé að fólk með þingreynslu sitji á þingi, er hæfileg endurnýjun nauðsynleg,“ segir hún.

„Ég er sátt við ákvörðun mína, sem er persónuleg ákvörðun.“

Aðspurð hvort hún muni leggja stjórnmál á hilluna þegar hún hættir á þingi segir hún að hún muni aldrei geta stillt sig um að taka þátt í pólitísku starfi. „Mamma er 83 ára og hún er enn að í stjórnmálum á Siglufirði. Hún er mín besta fyrirmynd.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×