Innlent

Hallinn minnkar á milli mánaða

Meiri aukning í út- en innflutningi
Vöruskiptahallinn nam 7,7 milljörðum króna í september samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.
Meiri aukning í út- en innflutningi Vöruskiptahallinn nam 7,7 milljörðum króna í september samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.

Í september voru fluttar inn vörur fyrir 30 milljarða króna en út fyrir sem nemur 22,3 milljörðum samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gær.

Útflutningur hefur aukist töluvert frá því í ágúst þegar hann mældist 16,6 milljarðar króna. Innflutningur hefur líka aukist lítillega.

Vöruskiptahallinn í september nemur því 7,7 milljörðum króna fyrir september og minnkar milli mánaða en í ágúst mældist hann 11,7 milljarðar. Í september í fyrra nam hallinn 68,6 milljörðum króna.

Í Vegvísi Landsbankans segir að líklegt sé að vöruskiptahallinn lækki áfram milli mánaða. Þegar sé farið að draga úr innflutningi vegna stóriðjufjárfestinga sem og innflutningi neysluvara. Að auki muni útflutningur áls verða meiri á næstu mánuðum en áður.

Krónan hefur verið að styrkjast að undanförnu. Það má hugsanlega að einhverju leyti rekja til talna um viðskiptahalla. Þó er líklegast að styrkinguna megi að mestu leyti rekja til aukinnar krónubréfaútgáfu.

Krónan styrktist þriðja daginn í röð í gær og hefur hún styrkst um 11,6 prósent frá því í lok annars ársfjórðungs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×