Innlent

Hafrannsóknir þarf að efla

Skipulagsbreytingar kynntar Jakob K. Kristjánsson, formaður stjórnar deildar um sjávarrannsóknir, og Einar K. Guðfinnsson sjávar­útvegsráðherra á fundinum í gær.
Skipulagsbreytingar kynntar Jakob K. Kristjánsson, formaður stjórnar deildar um sjávarrannsóknir, og Einar K. Guðfinnsson sjávar­útvegsráðherra á fundinum í gær.

Hafrannsóknir þarf að auka verulega hér á landi. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sem kynnti í gær skipulagsbreytingar á Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Stofnuð hefur verið ný deild innan hans sem fer með sjávarrannsóknir á samkeppnissviði. Breytingunum er ætlað að gefa fleirum færi á að sækja um styrk til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stunda hafrannsóknir, ekki síst þeim sem starfa utan Hafrannsóknastofnunarinnar en þeir hafa haft takmarkaðan aðgang að styrkjum til þessa.

Næstu þrjú ár renna samtals 75 milljónir af fé í eigu sjóðsins til deildarinnar. Fjármununum verður svo úthlutað til rannsóknar- og þróunarverkefna á lífríki sjávar umhverfis Ísland með það að markmiði að efla sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og samkeppnishæfni sjávarútvegs. Einar segist fyrst og fremst vonast til þess að þetta verði til að auka fjölbreytni á hafrannsóknum hér við land þar sem ný leið opnist fyrir vísindafólk til að afla fjár til rannsókna sinna.

Hann ítrekar þó að Hafrannsóknarstofnun hafi unnið mjög gott starf sem þurfi einnig að efla og verða fjárveitingar til hennar auknar um 100 milljónir á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×