Innlent

Lægstu meðaltekjur á landinu

Hvergi á landinu eru lægri mánaðartekjur að meðaltali en á Norðurlandi vestra, 250 þúsund krónur. Meðaltekjur á landinu öllu eru 327 þúsund krónur og eru tekjur á Norðurlandi vestra því fjórðungi lægri.

Lægstu tekjurnar í landshlutanum eru í Skagabyggð, 133 þúsund, sem er næstum helmingur af landsmeðaltali. Það eru jafnframt lægstu meðalmánaðartekjur á öllu landinu.

Þetta kemur fram í sjöttu grein af átta í greinaflokki Fréttablaðsins um byggðamál sem birtist í blaðinu í dag.

Þar má einnig lesa að íbúðaverð á Norðurlandi vestra er næstlægst af öllum landshlutum, eða 69 þúsund krónur fermetrinn að meðaltali. Einungis á Vestfjörðum er húsnæðisverð lægra.

Þá hefur íbúum á Norðurlandi vestra fækkað um 13 prósent á síðasta aldarfjórðungi. Í einungis einum öðrum landshluta hefur fólksfækkunin verið meiri, það er á Vestfjörðum.

Raunfækkunin á Norðurlandi vestra er þó mun meiri ef miðað er við meðalfjölgun á landsvísu, sem er 31 prósent. Ef íbúum í landshlutanum hefði fjölgað í samræmi við landsmeðaltal ættu þeir að vera tæplega tíu þúsund í stað um 7.500.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×