Innlent

Trúnaði um öryggismál aflétt

Sólveig Pétursdóttir Forseti Alþingis var fyrsti flutningsmaður frumvarps um aðgang að upplýsingum um öryggismál.
Sólveig Pétursdóttir Forseti Alþingis var fyrsti flutningsmaður frumvarps um aðgang að upplýsingum um öryggismál.

Alþingi samþykkti í gærkvöldi lög sem aflétta þagnarskyldu opinberra starfsmanna á málum er varða öryggi Íslands á árunum 1945-1991. Lögin ná einnig til opinberra starfsmanna sem látið hafa af störfum.

Forsætisráðherra skipaði í júní nefnd til að gera tillögu um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að opinberum gögnum um öryggismál.

Samkvæmt lögunum, sem samþykkt voru í gærkvöldi, skal nefndin hafa frjálsan aðgang að öllum gögnum í vörslu stjórnvalda sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á tímum kalda stríðsins.

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn voru þingflokksformenn allra flokka. Sólveig sagði mikilvægt að lögin næðu fram að ganga svo nefnd forsætisráðherra gæti sinnt störfum sínum.

Henni er ætlað að kanna hvaða stjórnvöld hafa gögn um öryggismál í fórum sínum og gera könnun á þeim. Opinberum starfsmönnum er gert skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál. Sjálfir verða nefndarmenn bundnir þagnarskyldu um viðkvæmar einkalífsupplýsingar og upplýsingar um öryggismál sem varða virka öryggis- eða varnarhagsmuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×