Innlent

Barnshafandi með 122 karton

Flugstöð Leifs eiríkssonar Konan var með mikið magn af sígarettum í tveim troðfullum ferðatöskum.
Flugstöð Leifs eiríkssonar Konan var með mikið magn af sígarettum í tveim troðfullum ferðatöskum.

Tæplega þrítug barnshafandi kona var stöðvuð við reglubundið eftirlit tollvarða aðfaranótt síðastliðins sunnudags með 122 karton af sígarettum í fórum sínum. Sígaretturnar voru faldar í tveimur troðfullum ferðatöskum en mjög óvenjulegt er að gerðar séu tilraunir til að smygla viðlíka magni af þess konar varningi með flugi hingað til lands.

Konan, sem var komin sex mánuði á leið, var að koma með flugvél Iceland Express frá Alicante á Spáni þegar hún var stöðvuð. Hún var handtekin eftir að tollverðir fundu sígaretturnar og yfirheyrð morguninn eftir. Henni var sleppt að þeim loknum en málið er áfram í rannsókn hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli.

Sígaretturnar voru af ýmsum velþekktum tegundum sem allar bjóðast til sölu á Íslandi. Verð á pakka af þannig sígarettum er vanalega í kringum 580 krónur og því ljóst að varningurinn er nokkuð verðmætur, eða rúmlega 700.000 króna virði. Viðurlög við því að flytja vörur til landsins frá útlöndum og tollfrjálsum svæðum með ólöglegum hætti eða án þess að gera tollayfirvöldum grein fyrir þeim eru fjársektir eða fangelsi í allt að tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×