Innlent

Kenningar sem notaðar eru eiga ekki við

Sigríður Finsen, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og forseti bæjarstjórnar í Grundarfirði, segir að sú mynd sem dregin hafi verið upp af Vesturlandi í grein Fréttablaðsins í gær lýsi því ekki sem raunverulega sé að gerast í landshlutanum.

„Mikill viðsnúningur varð fyrir tíu árum og hefur íbúum fjölgað jafnt og þétt upp frá því eftir nokkra fækkun,“ segir hún. „Atvinnulíf stendur í miklum blóma eins og sést meðal annars á því að nýverið var tekin í notkun stækkun á álverinu við Grundartanga,“ segir hún.

„Gífurlegur viðsnúningur hefur orðið eftir að Hvalfjarðargöngin komu og uppbygging hefur verið í kringum vaxandi sumarbústaðabyggð á svæðinu,“ segir Sigríður.

Þá hafi uppgangur Viðskiptaháskólans á Bifröst átt þátt í að breyta ímynd Vesturlands í heild og sveitarfélög á Snæfellsnesi hafi haldið sínu striki án þess að stóla að miklu leyti á sjávarútveginn.

„Kenningarnar sem notaðar eru henta ef til vill ekki nógu vel til þess að varpa ljósi á það sem átt hefur sér stað á Vesturlandi undanfarinn áratug. Til að mynda segir þéttleiki byggðar í Borgarbyggð ekki til um það að þar er að myndast öflugur og vaxandi byggðarkjarni sem er að festa sig í sessi. Þá eru meðalmánaðartekjur ekki nógu marktækar fyrir ráðstöfunarfé því á mörgum stöðum er mikið um einkahlutafélög þar sem fólk greiðir sér laun eftir forskrift skattstjóra og tekur laun út sem fjármagnstekjur,“ bendir hún á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×