Innlent

Nær 500 börn ættleidd á 20 árum

Tæplega fimm hundruð börn hafa verið ættleidd á Íslandi frá öðrum löndum undanfarin tuttugu ár. Nú hefur verið stofnað Foreldrafélag ættleiddra barna hér á landi. Sigríður Ingvarsdóttir, formaður félagsins, segir hlutverk þess vera að standa vörð um hagsmuni kjörforeldra í sem víðustu samhengi, stuðla að rannsóknum á sviði ættleiðinga til hagsbóta fyrir félagsmenn og standa að fræðslu til félagsmanna og almennings um málefni tengd ættleiðingum.

Félagið heldur einnig út heimasíðu á aettleiding.is þar sem finna má fræðsluefni um ættleiðingar. Það er sérlega brýnt að stuðla að fræðslu en kjörforeldrar hafa fundið fyrir ýmsum vandkvæðum, til dæmis í skólakerfinu, sem rekja má til vanþekkingar á högum ættleiddra barna, segir Sigríður.

Félagið vill vera í góðum tengslum við fagaðila sem tengjast þessum málaflokki og þó góður árangur hafi náðst í styrkveitingum fyrir þá sem vilja ættleiða þá munum við áfram beita okkur í þeim málum, segir hún. Á síðustu tuttugu árum hafa 476 börn verið ættleidd frá öðrum löndum. Flest börn sem ættleidd hafa verið á Íslandi eru frá Indlandi, Kína, Indónesíu, Suður-Ameríku og Austur-Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×