Innlent

Banaslys í Sorpu á Álfsnesi

Karlmaður á sextugsaldri lést um tvöleytið í gær þegar hann var við vinnu í sorpurðunarstöð Sorpu á Álfsnesi á Kjalarnesi. Engin vitni urðu að slysinu og lögregla vinnur að rannsókn málsins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var maðurinn að keyra jarðveg frá framkvæmdum á vörubíl sínum. Bíllinn fór fyrir brún þegar maðurinn var að bakka honum og rann niður brekku.

Maðurinn kastaði sér þá út úr bílnum með þeim afleiðingum að hann varð undir honum og lést samstundis. Vinnufélagar hans komu að honum látnum.

Urðunarstaður Sorpu í Álfsnesi er í um 20 kílómetra fjarlægð frá móttökustöðinni í Gufunesi. Á vinnustaðnum starfa að jafnaði sex manns og eru þar urðuð hátt í 700 tonn af sorpi á dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×