Innlent

Nauðlenti vegna brauðofns

Nauðlending Neyðarástandi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli um stund þegar tilkynnt var um hugsanlegan eld í farþegarými flugvélar British Airways um klukkan sex í gær. Flugvélin var þá um fimmtíu kílómetra úti fyrir Reykjarnesi á leið til Denver í Bandaríkjunum. Ekki reyndist hætta á ferðum því í ljós kom þegar flugvélin lenti á Keflavíkurflugvelli að reykur í farþegarými vélarinnar stafaði af brauðofni sem ofhitnaði.

Allir voru kallaðir út eins og um flugslys væri að ræða. Við búum okkur alltaf undir það versta en vonum það besta, segir Ellisif Tinna Víðisdóttir, staðgengill sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Sem betur fer var þetta ekki eldur heldur ofn aftarlega í farþegarými sem ofhitnaði með þeim afleiðingum að reykur breiddist út um farþegarýmið. 268 voru í flugvélinni og biðu farþegarnir inni í vélinni á meðan flugvirkjar og Rannsóknarnefnd flugslysa könnuðu aðstæður. Ellisif Tinna segir að farþegarnir hafi almennt verið rólegir á meðan þeir biðu. Í það minnsta hafi fulltrúar Rauða kross Íslands ekki þurft að fara inn í vélina til að veita áfallahjálp.

Flugvélin var við það að fara af landi brott Þegar Fréttablaðið fór í prentun og var búist við að henni yrði flogið aftur til Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×