Innlent

Of lítið framboð dagforeldra

 Langflestir foreldrar sem eiga börn hjá dagforeldrum eru ánægðir með þjónustu dagforeldrisins, eða yfir 90 prósent. Þetta kemur fram í viðhorfskönnun sem Félagsvísindastofnun gerði í júní meðal á sjötta hundrað foreldra.

Mikill meirihluti var þó þeirrar skoðunar að ekki hefði verið úr nógu mörgum dagforeldrum að velja þegar leitað var að vistun og meira en þriðjungur hafði börnin sín í vistun í öðru hverfi en þeir bjuggu og störfuðu sjálfir.

Um helmingur svarenda hefði frekar kosið leikskólavist fyrir barnið sitt en vist hjá dagforeldri, þar væri kostur á öruggari vistun og skipulagðara starfi. Langflestir þeirra sem völdu frekar dagforeldra gerðu það vegna þess að þeim fannst barn sitt of ungt fyrir leikskólanám.

Könnunin var kynnt á fundi menntaráðs Reykjavíkur á þriðjudag. Á þeim fundi voru einnig samþykktar tillögur starfshóps um daggæslu í heimahúsum þar sem áhersla er lögð á það að ráðgjöf og eftirlit með daggæsluforeldrum verði áfram aðskilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×