Innlent

Persónuleg gögn ekki úr landi

Bandarískir hermenn Herliðið á Kefla­víkurflugvelli yfirgefur landið á næstu vikum, en gögn um íslenska starfsmenn verða eftir.
Bandarískir hermenn Herliðið á Kefla­víkurflugvelli yfirgefur landið á næstu vikum, en gögn um íslenska starfsmenn verða eftir. MYND/Vilhelm

Gögn sem geyma persónulegar upplýsingar um starfsmannahald bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli verða sett í geymslu hjá íslenska ríkinu. Að sögn Friðþórs Eydal, upplýsingafulltrúa varnarliðsins, verður gengið frá samningum þess efnis á næstunni.

Varnarliðið hefur ekki viljað afhenda starfsmönnunum þessi gögn og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins höfðu ýmsir starfsmenn áhyggjur af því að gögnin yrðu flutt úr landi.

„Varnarliðið og utanríkisráðuneytið hafa rætt um að ríkið taki þessi starfsmannahaldsgögn til geymslu,“ segir Friðþór. „Allar upplýsingar sem liggja hjá varnarliðinu eru aðgengilegar starfsmönnunum og þeir geta fengið afrit af eigin upplýsingum. Þær verða þó ekki látnar af hendi til þeirra, þar sem þær eru í eigu varnarliðsins. Reglur bandarískra stjórnvalda kveða á að geyma eigi gögn í ákveðinn tíma, þrátt fyrir að enginn hafi aðgang að þeim nema þeir sem þau varða. Þau munu ekki liggja á glám­bekk.“

Gögn um læknisskoðanir sem starfsmenn hafa farið í hjá hernum fara ekki í geymslu hjá ríkinu, heldur til Bandaríkjanna til vörslu, þar sem þeim verður eytt eftir ákveðinn tíma, að sögn Friðþórs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×