Innlent

Vinnuhestar eru betri námsmenn

í skólanum Þeir sem vinna með náminu skrópa oftar í kennslustundum en aðrir og finnst leiðinlegra í skólanum.
í skólanum Þeir sem vinna með náminu skrópa oftar í kennslustundum en aðrir og finnst leiðinlegra í skólanum.

Þeir framhaldsskólanemar sem vinna með náminu skila betri námsárangri en þeir sem vinna ekki, klára fleiri einingar og falla síður, þrátt fyrir að þeir hafi minni tengsl við skóla og félagslíf, nýti minni tíma í heimanám, séu meira fjarverandi úr skólanum og finnist hann leiðinlegri.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun sem félagsfræðingar við Menntaskólann í Kópavogi, Fjölbrautarskólann í Ármúla og Kvennaskólann í Reykjavík unnu í skólunum þremur.

Í könnuninni kemur fram að stúlkur vinni frekar með námi en piltar, eldri nemendur vinni frekar og vinna aukist í samræmi við það hversu langt nemendur eru komnir í námi. Þá er líklegra að nemandi vinni þeim mun minni menntun sem foreldrar hans hafa. Það segir Hannes Í. Ólafsson, einn þeirra sem könnunina gerði, sérstakt í ljósi þess að samkvæmt könnunum hafi lítil menntun foreldra neikvæð áhrif á námsárangur, sem stangist á við niðurstöður þessarar könnunar sem sýnir að þeir sem vinna standa sig betur.

Könnunin leiðir í ljós að 65 prósent nemenda vinna með námi, mismikið eftir skólum. Hannes segir hlutfallið þó geta verið hærra, þar sem líklegra sé að þeir sem vinna hafi verið fjarverandi úr skólanum þegar könnunin var lögð fyrir.

Könnunin var styrkt af Þróunarsjóði framhaldsskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×