Innlent

Ólögmæt notkun upplýsinga

Ólögmætt var að nota lista um mætingar nemanda í þeim tilgangi að meina einum þeirra þátttöku á hátíð fyrir unglinga á vegum Samfés. Þetta kemur fram í úrskurði sem Persónuvernd kvað upp 14. ágúst síðastliðinn.

Foreldrar unglingsins, sem er nemandi við Grunnskólann í Grindavík, fóru með málið til Persónuverndar og töldu að listi um mætingar hefði verið notaður á óréttmætan hátt. Á listanum kom fram að viðkomandi sýndi ekki ásættanlega mætingu í skólann en góð mæting var skilyrði fyrir þátttöku á Samfés-hátíðinni.

Gunnlaugur Dan Ólafsson, skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur, segir dóm Persónuverndar eðlilegan og bætir við að mikið magn upplýsinga um nemendur fari manna á milli í skólunum og geti notkun þeirra orkað tvímælis. „Umræddur listi var tekinn saman um þá nemendur sem ekki hafa mætt nægjanlega vel í skólann en engar aðrar upplýsingar var þar að finna.“ Gunnlaugur telur þetta mál verða til þess að farið verði yfir ábyrgð og verksvið skólans og að verklagsreglur verði settar á milli skólans og samstarfsaðila hans.

Gunnlaugur útilokar ekki að í framhaldinu verði tekið upp samstarf við Samfés um notkun upplýsinga en segir að slík ákvörðun verði tilkynnt foreldrum fyrirfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×