Innlent

Eimskip hafði fengið viðvörun

Uppskipun í Sundahöfn Nú hillir undir lok rannsóknar á meintum brotum Eimskips á samkeppnislögum frá 2002.
Uppskipun í Sundahöfn Nú hillir undir lok rannsóknar á meintum brotum Eimskips á samkeppnislögum frá 2002.

Meðal efnis í kæru Samskipa til samkeppnisyfirvalda í ágúst 2002 var að Eimskip stundaði undirboð og að verðskrár fyrir­tækisins væru óskýrar. Nú hillir undir lok rannsóknar yfirvalda og greindi Fréttablaðið frá því í gær að fyrstu niðurstöður gerðu ráð fyrir að Eimskip greiddi einn milljarð króna í sekt. Félagið hefur niðurstöðurnar til skoðunar og á eftir að koma að athugasemdum.

Í erindi Samskipa til Samkeppnis­stofnunar (sem nú heitir Samkeppniseftirlit) árið 2002 var Eimskip ítrekað sagt hafa boðið viðskiptavinum keppinauta sinna lægra verð fyrir flutninga en sambærilegum viðskiptavinum félagsins stóð til boða. Þá kom fram í erindi lögmanns Samskipa að Samkeppnisráð hefði áður beint þeim fyrirmælum til Eimskips að gæta þess í hvívetna að samningar fyrir­tækisins, eða aðrar athafnir sem varða viðskiptavini þess, fælu ekki í sér mismunun sem kynni að skaða samkeppnisskilyrði þeirra.

„Við teljum að þeir hafi brotið samkeppnislögin," sagði Ólafur Ólafsson, þá forstjóri Samskipa, í viðtali við Fréttablaðið. „Það þarf að vera einhver sýnileiki á verðlagningu flutningamarkaðarins, en verðskrárnar eru alveg úr takti við hin raunverulegu verð. Samkvæmt könnun sem við gerðum meðal okkar viðskiptavina er þetta eitt helsta umkvörtunarefnið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×