Innlent

Lögregla lokaði í gær búðum mótmælenda

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður

Lögreglan á Egilsstöðum handtók aðfaranótt mánudags fjórtán mótmælendur sem farið höfðu inn á vinnusvæði við Kárahnjúkavirkjun og meðal annars hlekkjað sig við vinnuvélar og truflað framkvæmdir. Tveir mótmælendanna voru íslenskir en tólf erlendir. Framkvæmdaraðilar á svæðinu hafa lagt fram kæru vegna athæfisins og er það nú í rannsókn hjá lögreglunni á Egilsstöðum. Mótmælendunum sem voru handteknir í fyrrinótt var sleppt úr haldi um miðjan dag í gær.

Þá hefur tjaldbúðum mótmælenda undir Snæfelli verið lokað og gestir þar verið sendir á brott.

Í tilkynningu frá Lárusi Bjarnasyni, sýslumanni á Seyðisfirði, kemur fram að lögreglunni hafi borist beiðni frá umráðaaðila landsins sem mótmælendur hafa hafst við á undanfarið um að þeir verði fjarlægðir af svæðinu.

„Það er mikilvægt að lögreglan hagi sér samkvæmt sínum vinnureglum. Þeir hafa bent á mikinn kostnað við löggæslu á virkjunarsvæðinu en að okkar mati verður það að teljast eðlilegur kostnaður þegar um svona framkvæmd er að ræða,“ segir Bjarki Bragason, talsmaður Íslandsvina, sem skipulögðu tjaldbúðirnar undir Snæfelli í upphafi. Hann segir sjálfsagt að fólk mótmæli þessum framkvæmdum og að það sé hluti af tjáningarfrelsi einstaklinga. Hins vegar hafi mótmælendurnir sem handteknir voru í fyrrinótt ekki verið á vegum Íslandsvina heldur sjálfstæðir einstaklingar.

„Það er spurning hvort yfirstjórn lögreglumála í landinu vill reka lögreglu sem nýtur trausts borgaranna og hagar sér í samræmi við almennar lýðræðisvenjur eða hvort lögreglustjórnin vill láta lögregluna ganga fram án tillits til réttinda borgaranna,“ segir Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttar­lögmaður.

Hann segir að ef vilji sé fyrir hinu fyrrnefnda verði að fara fram rannsókn á því sem þarna gerðist og þeir sem beri ábyrgð vera dregnir til ábyrgðar.

„Landsvirkjun fer hvorki með lögregluvald né dómsvald í ríkinu en lögreglan hlýddi þeim,“ segir Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×