Innlent

Mesta umferðin að norðan

Umferð við hvalfjarðargöngin
Umferð var mikil við Hvalfjarðargöngin. Lögregla segir straum ferðamanna í gær hafa legið af Norðurlandi, enda besta veðrið þar um helgina.
fréttablaðið/Daníel
Umferð við hvalfjarðargöngin Umferð var mikil við Hvalfjarðargöngin. Lögregla segir straum ferðamanna í gær hafa legið af Norðurlandi, enda besta veðrið þar um helgina. fréttablaðið/Daníel

Samdóma álit lögreglumanna víðs vegar um landið er að umferðin hafi gengið vel í gær. Lögreglan í Reykjavík segir mikla umferð hafa legið til borgarinnar allan daginn, sem hafi tekið að þyngjast upp úr hádeginu.

Vilhjálmur Stefánsson, lögreglumaður á Blönduósi, segir að góða veðrið fyrir norðan hafi augljóslega trekkt fólk að og veðrið í gær á Norðurlandi hafi orðið til þess að fólk var seinna á ferðinni. Lögreglan á Blönduósi stöðvaði um fimmtíu ökumenn í gær fyrir of hraðan akstur, en sá bíræfnasti ók á 149 kílómetra hraða.

Eyþór Friðriksson, starfsmaður í gjaldskýli Spalar við Hvalfjarðargöng, segir að nánast hafi bíll verið við bíl frá hádegi. „Um sjöleytið náði röðin við göngin um tvo kílómetra,“ segir Eyþór en hann ber umferðinni góða söguna. Undir kvöld tók umferðin að minnka.

Jón Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Selfossi, segir umferðina hafa verið mikla á sunnudeginum og það hafi létt á umferðinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×