Innlent

Ellefu tegundir ánamaðka

ÁNAMAÐKUR Ellefu tegundir ánamaðka lifa á Íslandi en til samanburðar má geta þess að nokkrir tugir finnast annars staðar á Norðurlöndunum.
ÁNAMAÐKUR Ellefu tegundir ánamaðka lifa á Íslandi en til samanburðar má geta þess að nokkrir tugir finnast annars staðar á Norðurlöndunum.

Um fimmtíu vísindamenn eru staddir á ráðstefnu um dýralíf í jarðvegi sem haldin er á Akureyri. Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur segir að hér kunni að finnast smádýrategundir sem ekki finnist annars staðar.

Þetta er fyrsta skiptið sem ráðstefna af þessu tagi er haldin á Íslandi en þar koma saman vísindamenn frá hinum Norðurlöndunum, Eistlandi og Rússlandi og kynna rannsóknarniðurstöður sínar. "Einn vísindamannanna var á ferð á Íslandi í haust og komst þá að því að tegundir mordýra, sem eru smádýr í jarðvegi, eru fleiri en áður hafði verið talið á Íslandi."

Þá verður á ráðstefnunni fjallað um hringrásina í jarðveginum, um tegundafjölbreytni jarðvegsdýra og áhrif mannlegra aðgerða á jarðvegsdýralífið. Bjarni segir jarðveg á Íslandi vera sérstakan því þetta sé eldfjallajörð og því kunni að finnast hér dýrategundir sem ekki finnist annars staðar.

Bjarni segir að vegna legu landsins sé dýralíf í jarðvegi hér fábreyttara en í öðrum löndum. "Sem dæmi má nefna að hér finnast aðeins ellefu tegundir af ánamöðkum en annars staðar á Norðurlöndunum eru þær nokkrir tugir. Köngulóartegundir eru tæplega eitt hundrað hér á landi en flestar þeirra eru litlar."

Bjarni segir ýmislegt geta haft áhrif á dýralíf í jarðvegi og nefnir sem dæmi túnrækt, sinubruna, virkjanaframkvæmdir, geislun og mengunarslys ýmiss konar. "Flest smádýr lifa í efstu fimm sentimetrum jarðvegs og því er margt sem getur haft áhrif á þau. Ég hef verið að rannsaka áhrif túnræktunar á smádýr og þar kemur í ljós að í túnrækt fækkar tegundum dýra í jarðvegi en hefur jafnframt þau áhrif að innan sumra dýrategunda verður veruleg fjölgun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×