Innlent

Tíu þúsund fá engar bætur

Jóhanna Sigurðardóttir  Þingmaður Samfylkingarinnar segist telja óðelilegt að hækkun fasteignamats leiði til skerðingar vaxtabóta.
Jóhanna Sigurðardóttir Þingmaður Samfylkingarinnar segist telja óðelilegt að hækkun fasteignamats leiði til skerðingar vaxtabóta. MYND/GVA

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu fá tíu þúsund færri einstaklingar vaxtabætur þetta árið. Greiðslur vaxtabóta lækka jafnframt um sjö hundruð milljónir vegna tekna árið 2005. Þessa skerðingu má meðal annars rekja til hækkunar á fasteignamati um 35 prósent á milli ára.

„Það er óeðlilegt að mínu viti að hækkun á fasteignamati leiði til þess að vaxtabætur skerðist,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar. „Það hefur ekkert breyst í hugum þessa fólks frá því að það fékk vaxtabætur í fyrra nema að fasteignamatið hefur verið að hækka.“

Jóhanna segir að mörgum muni bregða í brún þegar þeir sjá skerðinguna svart á hvítu á álagningarseðlunum sem berast munu landsmönnum á næstu dögum. „Fólk er búið að reikna með vaxtabótunum í sínum útgjöldum fyrir árið og gerði sér ekki grein fyrir hversu mikil skerðingin yrði,“ segir Jóhanna.

Í samkomulagi á milli Alþýðusambands Íslands og ríkisstjórnarinnar frá því í júní er kveðið á um að ákvæði laga um vaxtabætur verði endurskoðuð ef í ljós komi að hækkun fasteignaverðs verði til skerðingar á vaxtabótum.

„Fjármálaráðherra verður að vinda sér í þessa leiðréttingu svo að fólk fái það sem það reiknaði með ef ekkert hefur breyst í kjörum þess,“ segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×