Innlent

Margir með kvefpestir

Atli Árnason
Atli Árnason

Talsvert meiri aðsókn hefur verið á Læknavaktina í sumar en fyrri sumur. Rétt tæplega fimm þúsund manns hafa leitað til lækna vaktarinnar það sem af er júlímánuði og sami fjöldi gerði slíkt hið sama í júní.

Atli Árnason, yfirlæknir á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi og stjórnarformaður Læknavaktarinnar, segir aðsókn á vaktina gefa einhverja mynd af heilsu landsmanna hverju sinni og telur líklegt að tíðarfarið hafi sín áhrif á heilsu fólks. „Það, hversu misviðrasamt hefur verið, kann að hafa sitt að segja, það er hlýtt einn daginn en rigning hinn. Fólk á þá til að kvefast og lætur kíkja á sig vegna þess.“

Atli segir alltaf einhverjar pestir í gangi þótt ekki sé hinn eiginlegi inflúensutími, sem jafnan er yfir vetrarmánuðina. „Flestir fara í apótek og ná sér í hóstamixtúru og nefsprey og koma svo til okkar þegar það hefur ekki gengið. Þá er það oft komið með kinnholubólgur og bronkítis og fær þá pensilín ef við metum að fólkið þurfi það.“

Aðspurður segir Atli mikilvægt að fólk fari vel með sig, kenni það sér meins. „Það er alltaf ráðlegt að fara vel með sig ef maður er veikur. Þótt fólk sé ungt og hraust þá eru hiti og veikindi viðvörun sem mikilvægt er að taka tillit til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×