Innlent

Fasteignasalar stefna eigin eftirlitsnefnd

Fasteignasala Formaður Félags fasteignasala segir málið snúast um starfsmann fasteignasölu sem kynnti sig sem fasteignaráðgjafa. Hann segir það brjóta gegn lögverndun starfsheitis fasteignasala.
Fasteignasala Formaður Félags fasteignasala segir málið snúast um starfsmann fasteignasölu sem kynnti sig sem fasteignaráðgjafa. Hann segir það brjóta gegn lögverndun starfsheitis fasteignasala.

Félag fasteignasala hefur stefnt eftirlitsnefnd félagsins fyrir dóm vegna þess að því þykir nefndin ekki taka nógu hart á brotum fasteignasala í starfi og að hún hafi ekki sinnt fjölda verkefna sem til hennar hafi verið beint.

Björn Þorri Viktorsson, formaður félagsins, segir málið í hnotskurn snúast um starfsmann fasteignasölu sem kynnti sig sem fasteignaráðgjafa, en það brjóti gegn lögverndun starfsheitis fasteignasala. Leitað hafi verið til nefndarinnar og óskað eftir að vinnuveitandi mannsins yrði áminntur, en þeirri beiðni var hafnað.

Magnús Einarsson, sem situr í eftirlitsnefnd Félags fasteignasala, segist ánægður með stefnu félagsins á hendur nefndinni. "Ef menn eru ekki sammála um einhvern hlut eru dómstólar til þess að skera úr um ágreining. Nefndin fagnar því að menn vilji fara þessa leið."

Magnús segir rétt að nefndin sinni ekki öllum málum sem til hennar sé beint, en það sé gert vegna þess að þau séu nefndinni óviðkomandi. "Nefndin er búin að taka fyrir á þriðja hundrað mál síðan við byrjuðum fyrir rúmu ári og ég tel að hún standi sig mjög vel." Hann segir nefndina hafa tekið á öllum þeim málum sem hafi komið upp varðandi brot fasteignasala í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×