Innlent

SMS-ruslsendingar vandamál

Hanna Charlotta Jónsdóttir hjá Símanum segir að afar erfitt sé fyrir fyrirtækið að fyrirbyggja að SMS-ruslsendingar berist íslenskum farsímanotendum. Hún segir Símann nota búnað til að skynja óeðlilegan fjölda SMS-sendinga frá erlendum símafyrirtækjum.

„Tæknimenn símans bregðast svo við eftir atvikum og takmarka eða loka fyrir viðkomandi SMS-sendingar. Einnig er haft samband við það erlenda símafyrirtæki þaðan sem SMS-in koma og því tilkynnt um að aðili sé að misnota sér kerfi þeirra á þennan hátt,“ segir Hanna Charlotta.

Hanna Charlotte segir að viðleitni símans sé að leita stöðugt nýrra leiða til að vernda viðskiptavini sína gegn óvelkomnum sendingum af þessu tagi.

Lögregla vinnur enn að rannsókn SMS-málsins svokallaða að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns lögreglunnar í Reykjavík.

Sem fyrr hefur aðeins einn einstaklingur kært stuld til lögreglu þar sem bakdyr á tölvu hans voru notaðar í tengslum við SMS-fjöldasendinguna á dögunum. Lögregla segist vona að um einstakt tilfelli sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×