Innlent

Farið verði eftir tillögunum

Jóhannes Gunnarsson
Jóhannes Gunnarsson

„Forsætisráðherra hafnar í raun tillögum sem koma fram í skýrslu formanns nefndar um hátt matvælaverð og ég velti fyrir mér til hvers þessi nefnd var stofnuð,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Forsætisráðherra hefur lýst efasemdum um að skattalækkanir á sælgæti til dæmis myndu skila sér til neytenda og hugsanlega myndi ígildi skattsins renna eitthvert annað. Jóhannes segist ekki geta skilið þessi orð á annan veg en hann meini að mismunurinn renni í vasa framleiðenda, heildsala eða kaupmanna.

„Í fyrsta lagi liggur fyrir að þegar virðisaukaskattur var lækkaður í fjórtán prósent á flestöllum matvælum skilaði það sér til neytenda. Í öðru lagi hafa stjórnvöld eftirlitsstofnanir sem geta fylgt því fast eftir að þessar lækkanir skili sér til neytenda.“

Jóhannes segir orð forsætisráðherra um að standa þurfi vörð um landbúnaðarkerfið benda til þess að ekki eigi að hrófla við ofurtollum á innfluttum landbúnaðarvörum.

Aðspurður um hvort gagnrýni Neytendasamtakanna sé ótímabær, í ljósi þess hve stutt er frá útkomu skýrslunnar sem er í skoðun hjá ráðuneytinu, segist Jóhannes verða fyrstur til að fagna því ef farið verður eftir tillögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×