Innlent

Fagnaðarefni fyrir fyrirtækið

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group hf., segir þungu fargi af sér létt með niðurstöðu Hæstaréttar, þar sem frávísun fyrsta ákæruliðs Baugsmálsins er staðfest.

Í honum er Jóni Ásgeiri gefið að sök að hafa beitt stjórn Baugs blekkingum þegar fyrirtækið festi kaup á Vöruveltunni, sem þá átti og rak 10-11 verslanirnar. „Ég var hafður fyrir rangri sök og Hæstiréttur staðfestir það, öðru sinni. Það er ekkert saknæmt við þessi atriði sem nefnd eru í ákæru, og það er gott til þess að vita að það hafi nú endanlega verið staðfest með dómi. Það er ánægjulegt fyrir fyrirtækið sem ég starfa fyrir, og starfsmenn þess, að sjá hvernig málið er að þróast.“

Jón Ásgeir segist ekki efast um að málið eigi sér pólitískar rætur. „Ég reikna ekki með því að endurákært verði vegna þessa hluta málsins, þar sem Sigurður Tómas gaf það í skyn fyrir dómi að til þess kæmi ekki. Annars er ekki hægt að útiloka neitt, þegar ákæruvaldið í þessu máli er annars vegar. Það liggja fyrir því haldbærar sannanir að ritstjóri Morgunblaðsins, ásamt fleirum, markaði upphaf þessa máls. Á því leikur ekki neinn vafi og það er ástæðulaust að fjalla um málið með þeim hætti, að svo geti verið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×