Innlent

Frystar afurðir skila mestu

Löndun
Verðmæti og magn útfluttra sjávarafurða dróst saman á milli áranna 2004 og 2005.
Löndun Verðmæti og magn útfluttra sjávarafurða dróst saman á milli áranna 2004 og 2005. MYND/GVA

Sjávarútvegur Verðmæti útflutningsframleiðslu sjávarafurða nam 112 milljörðum króna árið 2005 og dróst saman um 5,7 prósent frá fyrra ári, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Útflutt afurðaverðmæti allra aflategunda nema uppsjávarfisks dróst saman frá fyrra ári en frystar afurðir skiluðu yfir helmingi útflutnings­verðmætis.

Á milli áranna 2004 og 2005 dróst útflutningur sjávarafurða saman um 73 þúsund tonn. Árið 2005 voru flutt út 755 þúsund tonn, samanborið við 828 þúsund tonn árið áður. Í tonnum talið hefur ekki verið flutt út minna magn síðan árið 2000.

Útflutningsverðmæti sjávar­afurða árið 2005 nam 110,1 milljarði króna og dróst saman um tólf milljarða frá fyrra ári, um 9,5 prósent. Hlutdeild sjávarafurða af heildarverðmæti vöruútflutnings landsins var 56,7 prósent samanborið við 60,2 prósent árið 2004. Hlutdeild sjávarútvegs af heildarverðmæti var vel yfir sjötíu prósentum árin 1995 til 1998.

Af einstökum afurðaflokkum skilaði frysting alls rúmlega helmingi útflutningsverðmætis, tæpum 58 milljörðum króna. Útflutningsverðmæti ísaðra fiskafurða hefur aukist og nam tæpum tuttugu milljörðum árið 2005. Verðmæti ísaðra afurða er nú í fyrsta sinn meira en saltaðra, en verðmæti þeirra var rúmir átján milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×