Innlent

Svart reykjarský yfir firðinum

rússneski togarinn tsefey Reykjar­mökkurinn frá skipinu var sýnilegur úr nokkurra kílómetra fjarlægð.
rússneski togarinn tsefey Reykjar­mökkurinn frá skipinu var sýnilegur úr nokkurra kílómetra fjarlægð.

Rússneski togarinn Tsefey kom inn til Hafnarfjarðarhafnar á mánudag vegna vélarbilunar. Síðan hefur togarinn spúð svörtum reyk án afláts yfir hafnar­svæðið svo að svartan reykjar­mökk hefur lagt yfir stórt svæði í og við höfnina. Mökkurinn var sýnilegur úr margra kílómetra fjarlægð í gær.

Reykurinn kom úr ljósavél skipsins, sem sér því fyrir rafmagni. Hafnarfjarðarhöfn getur ekki séð togaranum fyrir rafmagni því rafkerfi skipsins er frumstætt, eins og tilfellið er í mörgum skipum af þessum slóðum. Rússarnir þurfa því yfirleitt að sjá sér sjálfir fyrir rafmagni, þó það heyri til undantekninga að jafn mikil mengun hljótist af.

Íbúar í nágrenni hafnarinnar kvörtuðu til hafnaryfirvalda yfir megnri fýlu og sjónmengun af völdum reyksins. „Þetta er auðvitað mjög bagalegt og við vonum að gert verði við togarann með hraði svo við losnum við hann héðan sem fyrst,“ segir Már Sveinbjörnsson hafnarstjóri. „Við vonuðumst til að losna við hann í dag, en umboðsmaður skipsins segir að búið verði að gera við hann á morgun og þá fari hann, sem við vonum að standist.“

Magnús Þórarinsson, umboðsmaður togarans, staðfesti við blaðamann að skipið myndi fara í dag ef allt gengur að óskum. Skipinu verður fyrst siglt út á ytri höfn í prufusiglingar og ef engin vandræði koma upp heldur það á miðin í framhaldi, íbúum Hafnarfjarðar án efa til mikillar ánægju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×