Innlent

Átök í borgarstjórn

dagur B. Eggertsson
dagur B. Eggertsson

Fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn greiddu atkvæði gegn því að starf jafnréttisráðgjafa yrði lagt niður hjá Reykjavíkurborg í borgarráði í fyrradag. Í stað embættisins verður stofnað embætti mannréttindafulltrúa sem mun starfa með nýrri mannréttindanefnd borgarinnar, en stofnun hennar var ákveðin í vor.

„Það komu fram áhyggjur frá kvennahreyfingum, að þessi breyting myndi draga þrótt úr jafnréttisstarfi," segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar. „Það var sameiginlegur skilningur að jafnréttisfulltrúi fengi sér við hlið mannréttindafulltrúa þó að verkefni sem snúa að innflytjendum, fötluðum og samkynhneigðum bætist við." Meirihlutinn vildi ekki gefa afdráttarlausar tryggingar fyrir að það gengi eftir á fundi borgarráðs, að sögn Dags.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir þetta útúrsnúning hjá minnihlutanum. „Með sömu rökum væri hægt að segja að R-listinn hefði verið að vega að kynjajafnrétti með því að leggja niður jafnréttisnefnd og stofna mannréttindanefnd. Við þær breytingar treysti R-listinn sér ekki til að fjölga stöðugildum en við ætlum í samráði við nýjan mannréttindafulltrúa að skoða vel hans starfssvið og hvort nauðsynlegt verði að fjölga þeim sem vinna með þessi mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×