Innlent

Landsbankinn kaupir írskt verðbréfafyrirtæki

Landsbanki Íslands herjar nú á Írland en bankinn keypti í morgun írska verðbréfafyrirtækið Merrion fyrir fjóra milljarða króna. Sjötíu og fimm manns vinna hjá fyrirtækinu og þeir verða fljótlega hluti af 1700 manna starfsliði Landsbankans. Fyrirtækið veltir hátt í 2 milljörðum króna á ári og hefur árlega skilað hálfum milljarði í hagnað frá því það var stofnað fyrir sex árum.

Landsbankinn fær helminginn í fyrirtækinu núna en hinn helminginn eftir þrjú ár. Þangað til verður fyrirtækið á hendi gömlu eigendanna sem eru aðallega starfsmenn. Að auki eiga eftirlitsstofnanir, írskar og íslenskar eftir að leggja blessun sína yfir ráðahaginn, þannig að töluvert langt er í að smiðshöggið verði rekið á viðskiptin. Þau eiga sér langan aðdraganda. John Conray, forstjóri Merrion Capital, sagðist vera ánægður með kaup Landsbankans á fyrirtækinu. Hann sagðist hafa skoðað rekstur þeirra og að sér litist vel á hann.

Landsbankamenn hafa verið grimmir í fyrirtækjakaupum á þessu ári. Í febrúar keyptu þeir breskt fyrirtæki og franskt fyrirtæki í september. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir að bankinn sé að reyna að byggja upp fjármálafyrirtæki á meginlandi Evrópu og segir kaupin á Írlandi vera mikinn vaxtamarkað og hann sagði Merrion vera fjórða stærsta verðbréfafyrirtæki Írlands og að mörgu leyti mætti segja að breytingarnar á Írlandi og andinn í viðskiptum væru svipaðar og á Íslandi. Mikill vöxtur og fjárfestingar erlendra aðila og Írar í útrás eins og Íslendingar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×