Sport

Enn hrynur vél hjá Raikkönen

Finnski ökuþórinn Kimi Raikkönen þarf að sætta sig við að vera færður aftur um tíu sæti á ráslínu í Japanskappakstrinum um helgina, eftir að vélin í bíl hans gaf upp öndina á æfingu í dag. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kappinn lendir í vandræðum vegna vélarbilunar og má hann illa við því þar sem McLaren er í hörðum slag við Renault um titil bílasmiða. Eldlogar og reykur stigu aftur úr bíl Raikkönen á æfingunni í dag, en bíllinn hefur verið til eilífra vandræða á keppnistímabilinu, þrátt fyrir að vera sá hraðskreiðasti lengst af. Það voru Spánverjinn Pedro de la Rosa hjá McLaren og Ricardo Zonta hjá Toyota sem náðu bestu tímunum á fyrstu æfingunum í dag. Michael Schumacher, sem hefur unnið fjórar af síðustu fimm keppnum í Japan, náði sér ekki á strik í fyrri hluta æfingarinnar, en eftir að fór að rigna á þeim síðari, náði hann að vinna sig verulega upp töfluna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×