Innlent

Upplýst um aðdraganda sjóslyss

Í dag ætlar lögregla að upplýsa um niðurstöður rannsóknar á slysi sem varð um síðustu helgi þegar skemmtibátur ók á Skarfasker á Viðeyjarsundi. Í slysinu fórst 51 árs gömul kona og 34 ára maður er talinn af, en lík hans hefur ekki enn fundist. Hjón björguðust nokkuð slösuð og tíu ára sonur þeirra lítið meiddur. Maðurinn sem bjargaðist er eigandi bátsins. Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn í Reykjavík segir margt hafa orðið til þess að ekki hafa verið gefnar upplýsingar úr rannsókninni til þessa, bæði þurfi að ræða við aðstandendur fólks og eins huga að rannsóknarhagsmunum. "Nú reikna ég með að við segjum eitthvað um hverju þetta hefur skilað og hver atburðarásin var," segir hann. Hlé hefur verið gert á formlegri leit að líki mannsins sem fórst í slysinu um helgina, en á laugardag stendur, að sögn Jónasar Hallsonar aðstoðaryfirlögregluþjóns, til að framkvæma stórleit, líkt og gert var eftir slysið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×