Velti bíl við að reyna ökukúnstir

Sautján ára piltur velti bíl sínum í Húsagötu við Brekkuhjalla í Kópavogi í gærkvöldi. Einn farþegi var í bílnum og sluppu þeir báðir ómeiddir. Ökumaðurinn var að leika sér að því að láta ískra í dekkjum í þessari íbúðagötu þar sem hámarkshraði er þrjátíu kílómetrar á klukkustund. Færnin var ekki meiri en svo að bíllinn endaði á toppnum og skemmdist talsvert.